Atriði sem vert er að hafa í huga við sölu eignar
Að selja fasteign er stórt skref sem krefst bæði skipulags og undirbúnings. Með því að huga að lykilatriðum áður en eignin fer á markað er hægt að tryggja betri framsetningu, jákvæðari upplifun fyrir væntanlega kaupendur og farsælari viðskipti. Hér eru nokkur hagnýt ráð sem hjálpa þér að undirbúa eignina vel fyrir sölu.
1 .Söluverðmat og val á fasteignasala
Fyrsta skrefið er að hafa samband við fasteignasala og fá söluverðmat og ráðleggingar um næstu skref. Veldu fasteignasala sem þú treystir, því fagleg ráðgjöf skiptir miklu máli í öllu ferlinu.
2. Laga og yfirfara eignina
Farðu vandlega yfir eignina áður en hún er sett á sölu. Gakktu úr skugga um að skápalamir séu í lagi, parketlistar fastir, og gluggar í góðu ásigkomulagi. Ef þarf, skrapaðu og málaðu. Það getur einnig verið skynsamlegt að mála veggi sem eru illa farnir eða þurfa ferskt yfirbragð.
3. Hreinlæti og fyrsta upplifun
Fyrsta sýn kaupenda skiptir sköpum. Þrífðu eignina mjög vel áður en fyrstu skoðanir fara fram – vel hreingerð eign getur ráðið úrslitum um jákvæða upplifun.
4. Undirbúningur fyrir ljósmyndun
Taktu vel til fyrir ljósmyndun. Fjarlægðu óþarfa hluti og reyndu að „létta“ á rýmum svo þau virki stærri og bjartari. Hlutir sem ekki eiga erindi á myndirnar má geyma í geymslu.
5. Ytra byrði og aðkoma
Hafðu garðinn og aðkomu hússins snyrtilega. Gakktu úr skugga um að útiljós virki og lagaðu það sem hægt er að bæta með litlum tilkostnaði. Ytra útlit hússins hefur mikil áhrif á fyrstu sýn kaupenda.
6. Söluyfirlit
Farðu vel yfir söluyfirlit fasteignasalans og tryggðu að allar upplýsingar séu réttar. Sem seljandi berð þú ábyrgð á að upplýsa um atriði sem skipta kaupanda máli.
7. Upplýsingar frá húsfélagi
Ef um fjölbýlishús er að ræða skaltu hafa á hreinu hvort framkvæmdir séu fyrirhugaðar og aðrar mikilvægar upplýsingar sem tengjast húsfélaginu.
8. Afhending eignar
Afhending á að fara fram á umsömdum degi og eigninni skal skilað hreinni. Gott er að hafa það viðmið að skila eigninni í því ástandi sem þú sjálf(ur) myndir vilja fá hana afhenta.
9. Varðveisla gagna
Geymdu öll skjöl sem tengjast fasteignaviðskiptum, s.s. kaupsamning, afsal, veðskuldabréf, kvittanir, greiðslur af lánum, fasteignagjöld og húsgjöld. Þau geta reynst dýrmæt í framtíðinni.
Með góðum undirbúningi eykur þú líkurnar á farsælli sölu og ánægju bæði kaupanda og seljanda. Aðgæslusemi, fagleg ráðgjöf og smáatriði sem vandað er til skipta sköpum þegar kemur að því að setja eign á markað.
